apríl 2018

Pílagrímaleiðin Strandarkirkja heim í Skálholt 2018

Fimm sunnudaga sumarið 2018 verður pílagrímaleiðin frá Strandarkirkju í Selvogi heim í Skálholt gengin. Skipuleggjendur eru Suðurprófastsdæmi og Skálholt.

Þátttakendur mæti á einkabílum á áfangastað hverrar göngu og skilja bíla eftir þar. Rúta flytur síðan hópinn á upphafsstað göngunnar og svo er gengið til áfangastaðar þar sem bílarnir bíða. Hægt að fara í stakar ferðir. Ganga þarf frá greiðslu fyrir kl. 15, fimmtud. fyrir ferð. Hver ferð kostar kr. 3.000 fyrir manninn en verður lækkað eftir því sem fleiri skrá sig. Gjaldið er fyrst og fremst fyrir rútubílinn. Vinsamlega greiðið skráningargjaldið kr. 3.000 á reikning Héraðsprests Suðurprófastsdæmis: 0152-26-012218 kt 630910-1100.

Göngulag pílagrímsins er með dálítið öðrum hætti en göngumannsins. Eitt er að fara af stað og ganga, en annað er að ganga í gleðisöng pílagrímsins. Þessar ferðir gætu því komið að gagni til að temja sér hugarfar pílagrímsins í henni veröld. Heimamenn mæta pílagrímum og kynna fyrir þeim sögur og sjónardeildarhringinn. Hugleiðingar, ritningarlestur, kyrrð og samtal ásamt altarissakramenti marka pílagrímagöngurnar.

Fólk fer á eigin ábyrgð alfarið í þessa göngu, að öllu leyti. 
Umsjónarmaður er Axel Á Njarðvík héraðsprestur og veitir hann frekari upplýsingar í síma 8561574 eða axel.arnason@kirkjan.is.

Í sumar verður gengið á eftirfarandi dögum:

27. maí 2018. Strandarkirkja – Þorlákskirkja. Lagt af stað með rútu kl. 9:30 frá íþróttahúsinu í Þorlákshöfn. Gengið frá Strandarkirkju um 18 km leið með sjónum sem leið liggur austur í Þorlákshöfn. Fararstjórar:  sr. Axel Á. Njarðvík og sr. Eiríkur Jóhannsson.

10. júní 2018. Þorlákskirkja – Eyrarbakkakirkja. Brottför með rútu frá Eyrarbakkakirkju kl. 9:30. Gengið eftir sandfjörunni frá Þorlákshöfn að Hafinu Bláa og áfram með sjónum, að Eyrarbakkakirkju.  Þessi ganga er um 19 km löng. Fararstjórar sr. Axel Á. Njarðvík og sr. Halldór Reynisson.

Pílagrímagangan Eyrarbakkakirkja – Laugardælakirkja sem ganga átti 24. júní verður því miður að fella niður af óviðráðanlegum ástæðum. Ákvörðun var tekin fimmtudagskvöldið 21. júní kl. 2100 og haft verður samband við þau sem hafa skráð sig. (24. júní 2018. Eyrarbakkakirkja – Laugardælakirkja. Brottför með rútu frá Eyrarbakkakirkja kl. 9:30. Leið upp með Ölvusá stikuð og komið við í Selfosskirkju og þaðan er ferðinni heitið í Laugardælakirkju. Leiðin er rúmir 24 km Fararstjóri sr. Halldór Reynisson. )

8. júlí 2018. Hraungerðiskirkja í Flóa – Ólafsvallakirkja á Skeiðum. Brottför með rútu frá Ólafsvallakirkju kl. 9:30. Gengið í átt að Hvítá og með henni og síðan í Ólafsvallakirkju. Göngutími 5 til 6 tímar og 16-17 km farnir. Fararstjórar sr. Axel Á. Njarðvík og sr. Halldór Reynisson.

22. júlí 2018. Ólafsvallakirkja á Skeiðum – Skálholtsdómkirkja. Brottför með rútu frá Skálholti kl. 7:00. Gengið um 17 km leið frá Ólafsvallakirkju á Skeiðum sem leið liggur í átt á Fjalli á Skeiðum síðan er þræddur vestur hluti Vörðufells, yfir brúnna við Iðu og heim í Skálholti. Göngunni lýkur á Skálholtshátíð þar sem pílagrímar koma einnig úr Borgarfirði þennan dag. Gengið er til kirkjunnar kl. 13:30. Kirkjukaffi í lok messunnar. Göngustjóri verður sr. Axel Á Njarðvík.
Boðið er upp á gistingu fyrir göngudaginn, þe. aðfaranótt sunnudagsins í Skálholtsbúðum og þarf að biðja um það sérstaklega hjá Skálholti í síma 486 8870.  Skráning hér í gönguna:
Viðurkenningarskjal afhent í Skálholti

Facebook síða er: pílagrímaleið

Vefsíður:  www.pilagrimagongur.is og www.pilagrimar.is